Stjórnmálaþátttaka kvenna

Kvenréttindabarátta undir kommúnisma var af skornum skammti þar sem grasrótarsamtök voru bönnuð en í staðinn voru kvenfélög hluti af kommúnistaflokknum. Barátta kvenna var því frekar á forsendum flokksins en kvennanna sjálfra og var konum jafnvel refsað fyrir að tala opinberlega um kvenréttindi. Eftir fall kommúnismans flykktust alþjóðleg kvenréttindasamtök til Mið- og Austur-Evrópuríkjanna með það fyrir augum að hjálpa konum að fóta sig í nýju kerfi. Það reyndist hins vegar ekki ganga vel því enn lifðu gamlar hugmyndir um að stéttabarátta væri mikilvægari heldur en kvenréttindabarátta, auk þess sem margar konur sem höfðu barist fyrir kvenréttindum í tíð kommúnista völdu að snúa heldur aftur til þeirra starfa sem þeim hafði áður verið meinað að stunda. Vestræn samtök og fræðimenn voru sökuð um að falsa upplýsingar um stöðu kvenna og voru þær ekki sáttar við að vera gerðar að fórnarlömbum breytinganna.

Kynjahlutfallið á þingum var ójafnt í tíð kommúnista og enn ójafnara í miðstjórn kommúnistaflokksins þar sem hið raunverulega vald lá. Hlutfallið lækkaði í fyrstu eftir að ríkin breyttust í lýðræðisríki en það hefur aukist með árunum og er nú ekki langt frá meðaltalinu á Vesturlöndum. Áhrif breytinganna á stjórnmálaþátttöku var því neikvæð í fyrstu en náði í flestum tilvikum aftur fyrri stöðu. Breytingin yfir í frjálslynt markaðshagkerfi er ekki aðalorsök þess að stjórnmálaþátttaka kynjanna er ekki jöfn, heldur var þátttaka kvenna í tíð kommúnista ekki góð og því varð breytingin ekki mikil. Auk þess er hlutfall kvenna á þingum í öðrum lýðræðisríkjum almennt ekki mikið hærra en gerist í fyrrum kommúnistaríkjunum.

No comments: