Félagslegt umhverfi barneigna

Við lok kommúnistatímabilsins voru langflest börn á leikskóla, en það tók langan tíma að byggja upp svo öflugt dagvistunarkerfi. Foreldrar fengu barnabætur frá ríkinu og einstæðar mæður fengu meðlag með börnum sínum. Einnig voru fæðingarorlof yfirleitt löng og starf kvenna verndað á meðan á því stóð. Eftir fall kommúnismans lagðist dagvistunarkerfi kommúnistanna svo til af, sem bitnaði sérstaklega á konum. Sú stefna var bein afleiðing frjálslyndrar markaðshyggju þar sem ný stefna ríkjanna var að minnka ríkisrekstur á öllum sviðum, þrátt fyrir að dæmi hafi sýnt að ekki sé mögulegt að einkareka dagvistun ef kostnaður foreldra á að vera viðráðanlegur. Barnabætur, meðlög og fæðingarorlof héldust yfirleitt óskert í breytingunum og er það besta dæmið um áhrif gamla kommúníska kerfisins á markaðshagkerfið sem var sett á laggirnar í Mið- og Austur-Evrópu.

Fóstureyðingar voru frjálsar og ekki litnar hornauga nema í einu ríkjanna, Austur-Þýskalandi. Lítið var um getnaðarvarnir og það þótti ekki tiltökumál að framkvæma fóstureyðingar. Það, ásamt tvöfaldri byrði kvenna, orsakaði gríðarlega fólksfækkun sem ríkin reyndu að svara með auknum styrkjum og lánum til foreldra. Það sem vantaði þó inn í slíkar úrlausnir var þátttaka karla inni á heimilunum. Sums staðar voru fóstureyðingar bannaðar eftir fall kommúnismans en í flestum ríkjum voru skilyrði fyrir þeim gerð strangari. Þar sem getnaðarvarnir eru nú fáanlegar hefur fóstureyðingum í flestum ríkjum fækkað mikið með árunum. Félagslegar forsendur barneigna versnuðu því hvað varðar dagvistun en héldust stöðugar hvað varðar bætur, fæðingarorlof og í flestum tilvikum fóstureyðingar.

No comments: