Samantekt

Í upphafi ritgerðarinnar var fjallað um hugmynd Bebels að grundvöllur hvers kyns samfélagslegrar kúgunar sé að hinn kúgaði sé efnahagslega háður kúgara sínum. Átti hann þá við öreigana sem voru háðir kapítalistunum um vinnu og um konur sem voru háðar eiginmönnum sínum um framfærslu. Hugmynd hans á einnig við um aðstæður fólks undir kommúnisma þegar það var háð ríkinu um vinnu og allar nauðþurftir. Alræðislegir stjórnarhættir ríkisins stýrðu gjörðum fólks og mótuðu með tímanum kerfisbundið kynjamisrétti. Þrátt fyrir að kommúnismi hafi átt að frelsa konur undan heimilisstörfum og eignarrétti karla á þeim varð það ekki raunin og hefðbundin gildi héldu áfram að stjórna lífi þeirra.

Lenín reyndi að stjórna samkvæmt upphaflegu bolsévísku hugmyndunum en þegar Stalín tók við breytti hann um stefnu. Frelsi einstaklingsins var þá ekki lengur forgangsatriði heldur efnahagslegar forsendur ríkisins. Stórtækar hugmyndir um ríkisvæðingu heimilishalds brugðust en konum í láglaunastörfum var hampað sem verkalýðshetjum. Það sem hafði áhrif var breytt stefna ríkisins og hefðbundnar staðalímyndir kynjanna en einnig stjórnkerfisbreytingin sem slík, því þunglamalegar miðstýrðar ákvarðanir báru ekki alltaf besta árangurinn.

Jafnrétti í kommúnistaríkjunum var bæði jákvætt og neikvætt. Það var jákvætt að það skyldi ríkja lagalegt jafnrétti milli kynjanna en neikvætt að því skyldi vera þvingað á fólk með alræðislegum aðferðum. Staða kvenna var í raun ekki val þeirra sjálfra heldur stefna ríkisins. Opinber orðræða bar vott af kvenfrelsi og jafnrétti en þar sem firringarhugtak Marx var ekki notað innan kommúnistaríkjanna sjálfra kom enginn auga á þá tvöfeldni sem var við lýði. Konur voru skyldaðar til þess að vinna úti en það kom enginn til móts við þær með heimilisstörfin.

Breytingarnar frá kommúnisma yfir í frjálslyndan kapítalisma höfðu ýmis áhrif á kynjajafnrétti í Mið- og Austur-Evrópu. Áhrifin voru að mörgu leyti neikvæð en það orsakaðist meðal annars af því að staða kvenna var ekki eins góð fyrir breytingarnar og kommúnistaríkin vildu láta í veðri vaka. Það má segja að upphaf breytinganna yfir í frjálslynt markaðshagkerfi hafi haft neikvæð áhrif á konur hvað varðar atvinnuöryggi, framfærslu og félagslegar aðstæður barneigna. Meginniðurstaða ritgerðarinnar er þó sú að það hafði áhrif á stöðu kvenna eftir fall kommúnismans að það hafði ekki ríkt jafnrétti undir kommúnisma. Arfleifð hefðbundinna viðhorfa til kvenna höfðu mikil áhrif á stöðu þeirra ásamt afleiðingum frjálslyndrar markaðshyggju, tortryggni í garð vestrænna gilda og stefnu ríkjanna.

Undanfarin ár hefur staða kvenna ef til vill lagast í þessum ríkjum sem hér um ræðir þar sem þau eru nú öll orðin aðilar að Evrópusambandinu. Ekki hefur verið fjallað sérstaklega um áhrif þess hér, þar sem enn eru ekki til nægar upplýsingar og áhrifin hafa verið misjöfn eftir tímabilum. Til dæmis sýndu mörg ríkjanna mikinn árangur í jafnréttismálum á umsóknartímabilinu, sem gengu síðar til baka eftir að þau gerðust fullgildir aðilar. Það er þó verðugt rannsóknarefni að skoða hvernig markaðshyggjustefna Evrópusambandsins hefur haft áhrif á stöðu kvenna í fyrrum kommúnistaríkjum.

Það vekur sérstaka athygli hversu mörg vandamál sem konur í kommúnistaríkjunum áttu við eru sambærileg þeim sem konur á Vesturlöndum standa frammi fyrir í dag og væri það einnig verðugt verkefni í að greina að hve miklu leyti stjórnvöld í lýðræðisríkjum með frjálslynd markaðshagkerfi geti haft áhrif á kynjajafnréttisbaráttuna og gildi þess fyrir samfélagið.

No comments: