Atvinnuumhverfi kvenna

Hér fara niðurstöður um hvert þeirra atriða sem borin voru saman í ritgerðinni, atvinnuhverfi kvenna, stjórnmálaþátttaka þeirra og félagslegar aðstæður barneigna. Að síðustu er að finna samantekt á efni ritgerðarinnar og hugleiðingu um hvernig halda megi áfram að skoða þetta efni í öðru samhengi.


Þótt flestar konur hafi unnið úti blekkir slík tölfræði því í rauninni var vinnumarkaðurinn kynskiptur, þar sem konur unnu við hefðbundin kvennastörf og höfðu mun lægri laun. Þær komust síður í stjórnunarstöðum þar sem karlar höfðu jafnan betri pólitísk sambönd og menntun, sem þótti við hæfi fyrir slík störf. Engin fagleg eða opinber umræða fór fram um kynjaskiptingu atvinnumarkaðarins og því viðhélst karllægt eðli hans. Við innreið markaðshyggju voru konur engu bættari og hafði fyrri staða þeirra á atvinnumarkaðnum áhrif þar á. Mikið atvinnuleysi reið yfir og hafði markaðurinn ekki undan að bæta upp fyrir töpuð störf hjá hinu opinbera. Konur voru í miklum meirihluta atvinnulausra og áttu mun erfiðara með að fá vinnu í nýja kerfinu auk þess sem áhersla á útlit og kynþokka jókst mikið og fengu konur jafnvel ekki vinnu nema þær þættu fallegar.

Hefðbundin viðhorf til kynjanna voru ráðandi og sást það á væntingum foreldra til barna sinna. Raunverulega var ekki litið svo á að starfsframi kvenna skipti mestu máli. Þær fengu mestu viðurkenninguna fyrir það að vera húsmæður og vegna þess upphófu þær einnig sjálfar húsmóðurhlutverkið. Þessi hefðbundnu viðhorf höfðu áhrif á kynjaskiptingu í vali á námi, sem leiddi til kynjaskiptingar á vinnumarkaði. Auk þess höfðu þau áhrif á framgang kvenna í starfi þar sem fyrirfram var gert ráð fyrir því að konur hefðu áhuga á barneignum en ekki starfsframa. Kynbundin verkaskipting á atvinnumarkaðnum kom aftan að konum í nýja markaðshagkerfinu og voru konur mun tregari við að tileinka sér hætti frjáls markaðar og fyrirtækjareksturs. Atvinnuumhverfi kvenna versnaði því til muna eftir fall kommúnismans. Markaðshagkerfi tryggði konum ekki vinnu og mismunaði þeim meira en áður hafði tíðkast.

Stjórnmálaþátttaka kvenna

Kvenréttindabarátta undir kommúnisma var af skornum skammti þar sem grasrótarsamtök voru bönnuð en í staðinn voru kvenfélög hluti af kommúnistaflokknum. Barátta kvenna var því frekar á forsendum flokksins en kvennanna sjálfra og var konum jafnvel refsað fyrir að tala opinberlega um kvenréttindi. Eftir fall kommúnismans flykktust alþjóðleg kvenréttindasamtök til Mið- og Austur-Evrópuríkjanna með það fyrir augum að hjálpa konum að fóta sig í nýju kerfi. Það reyndist hins vegar ekki ganga vel því enn lifðu gamlar hugmyndir um að stéttabarátta væri mikilvægari heldur en kvenréttindabarátta, auk þess sem margar konur sem höfðu barist fyrir kvenréttindum í tíð kommúnista völdu að snúa heldur aftur til þeirra starfa sem þeim hafði áður verið meinað að stunda. Vestræn samtök og fræðimenn voru sökuð um að falsa upplýsingar um stöðu kvenna og voru þær ekki sáttar við að vera gerðar að fórnarlömbum breytinganna.

Kynjahlutfallið á þingum var ójafnt í tíð kommúnista og enn ójafnara í miðstjórn kommúnistaflokksins þar sem hið raunverulega vald lá. Hlutfallið lækkaði í fyrstu eftir að ríkin breyttust í lýðræðisríki en það hefur aukist með árunum og er nú ekki langt frá meðaltalinu á Vesturlöndum. Áhrif breytinganna á stjórnmálaþátttöku var því neikvæð í fyrstu en náði í flestum tilvikum aftur fyrri stöðu. Breytingin yfir í frjálslynt markaðshagkerfi er ekki aðalorsök þess að stjórnmálaþátttaka kynjanna er ekki jöfn, heldur var þátttaka kvenna í tíð kommúnista ekki góð og því varð breytingin ekki mikil. Auk þess er hlutfall kvenna á þingum í öðrum lýðræðisríkjum almennt ekki mikið hærra en gerist í fyrrum kommúnistaríkjunum.

Félagslegt umhverfi barneigna

Við lok kommúnistatímabilsins voru langflest börn á leikskóla, en það tók langan tíma að byggja upp svo öflugt dagvistunarkerfi. Foreldrar fengu barnabætur frá ríkinu og einstæðar mæður fengu meðlag með börnum sínum. Einnig voru fæðingarorlof yfirleitt löng og starf kvenna verndað á meðan á því stóð. Eftir fall kommúnismans lagðist dagvistunarkerfi kommúnistanna svo til af, sem bitnaði sérstaklega á konum. Sú stefna var bein afleiðing frjálslyndrar markaðshyggju þar sem ný stefna ríkjanna var að minnka ríkisrekstur á öllum sviðum, þrátt fyrir að dæmi hafi sýnt að ekki sé mögulegt að einkareka dagvistun ef kostnaður foreldra á að vera viðráðanlegur. Barnabætur, meðlög og fæðingarorlof héldust yfirleitt óskert í breytingunum og er það besta dæmið um áhrif gamla kommúníska kerfisins á markaðshagkerfið sem var sett á laggirnar í Mið- og Austur-Evrópu.

Fóstureyðingar voru frjálsar og ekki litnar hornauga nema í einu ríkjanna, Austur-Þýskalandi. Lítið var um getnaðarvarnir og það þótti ekki tiltökumál að framkvæma fóstureyðingar. Það, ásamt tvöfaldri byrði kvenna, orsakaði gríðarlega fólksfækkun sem ríkin reyndu að svara með auknum styrkjum og lánum til foreldra. Það sem vantaði þó inn í slíkar úrlausnir var þátttaka karla inni á heimilunum. Sums staðar voru fóstureyðingar bannaðar eftir fall kommúnismans en í flestum ríkjum voru skilyrði fyrir þeim gerð strangari. Þar sem getnaðarvarnir eru nú fáanlegar hefur fóstureyðingum í flestum ríkjum fækkað mikið með árunum. Félagslegar forsendur barneigna versnuðu því hvað varðar dagvistun en héldust stöðugar hvað varðar bætur, fæðingarorlof og í flestum tilvikum fóstureyðingar.

Samantekt

Í upphafi ritgerðarinnar var fjallað um hugmynd Bebels að grundvöllur hvers kyns samfélagslegrar kúgunar sé að hinn kúgaði sé efnahagslega háður kúgara sínum. Átti hann þá við öreigana sem voru háðir kapítalistunum um vinnu og um konur sem voru háðar eiginmönnum sínum um framfærslu. Hugmynd hans á einnig við um aðstæður fólks undir kommúnisma þegar það var háð ríkinu um vinnu og allar nauðþurftir. Alræðislegir stjórnarhættir ríkisins stýrðu gjörðum fólks og mótuðu með tímanum kerfisbundið kynjamisrétti. Þrátt fyrir að kommúnismi hafi átt að frelsa konur undan heimilisstörfum og eignarrétti karla á þeim varð það ekki raunin og hefðbundin gildi héldu áfram að stjórna lífi þeirra.

Lenín reyndi að stjórna samkvæmt upphaflegu bolsévísku hugmyndunum en þegar Stalín tók við breytti hann um stefnu. Frelsi einstaklingsins var þá ekki lengur forgangsatriði heldur efnahagslegar forsendur ríkisins. Stórtækar hugmyndir um ríkisvæðingu heimilishalds brugðust en konum í láglaunastörfum var hampað sem verkalýðshetjum. Það sem hafði áhrif var breytt stefna ríkisins og hefðbundnar staðalímyndir kynjanna en einnig stjórnkerfisbreytingin sem slík, því þunglamalegar miðstýrðar ákvarðanir báru ekki alltaf besta árangurinn.

Jafnrétti í kommúnistaríkjunum var bæði jákvætt og neikvætt. Það var jákvætt að það skyldi ríkja lagalegt jafnrétti milli kynjanna en neikvætt að því skyldi vera þvingað á fólk með alræðislegum aðferðum. Staða kvenna var í raun ekki val þeirra sjálfra heldur stefna ríkisins. Opinber orðræða bar vott af kvenfrelsi og jafnrétti en þar sem firringarhugtak Marx var ekki notað innan kommúnistaríkjanna sjálfra kom enginn auga á þá tvöfeldni sem var við lýði. Konur voru skyldaðar til þess að vinna úti en það kom enginn til móts við þær með heimilisstörfin.

Breytingarnar frá kommúnisma yfir í frjálslyndan kapítalisma höfðu ýmis áhrif á kynjajafnrétti í Mið- og Austur-Evrópu. Áhrifin voru að mörgu leyti neikvæð en það orsakaðist meðal annars af því að staða kvenna var ekki eins góð fyrir breytingarnar og kommúnistaríkin vildu láta í veðri vaka. Það má segja að upphaf breytinganna yfir í frjálslynt markaðshagkerfi hafi haft neikvæð áhrif á konur hvað varðar atvinnuöryggi, framfærslu og félagslegar aðstæður barneigna. Meginniðurstaða ritgerðarinnar er þó sú að það hafði áhrif á stöðu kvenna eftir fall kommúnismans að það hafði ekki ríkt jafnrétti undir kommúnisma. Arfleifð hefðbundinna viðhorfa til kvenna höfðu mikil áhrif á stöðu þeirra ásamt afleiðingum frjálslyndrar markaðshyggju, tortryggni í garð vestrænna gilda og stefnu ríkjanna.

Undanfarin ár hefur staða kvenna ef til vill lagast í þessum ríkjum sem hér um ræðir þar sem þau eru nú öll orðin aðilar að Evrópusambandinu. Ekki hefur verið fjallað sérstaklega um áhrif þess hér, þar sem enn eru ekki til nægar upplýsingar og áhrifin hafa verið misjöfn eftir tímabilum. Til dæmis sýndu mörg ríkjanna mikinn árangur í jafnréttismálum á umsóknartímabilinu, sem gengu síðar til baka eftir að þau gerðust fullgildir aðilar. Það er þó verðugt rannsóknarefni að skoða hvernig markaðshyggjustefna Evrópusambandsins hefur haft áhrif á stöðu kvenna í fyrrum kommúnistaríkjum.

Það vekur sérstaka athygli hversu mörg vandamál sem konur í kommúnistaríkjunum áttu við eru sambærileg þeim sem konur á Vesturlöndum standa frammi fyrir í dag og væri það einnig verðugt verkefni í að greina að hve miklu leyti stjórnvöld í lýðræðisríkjum með frjálslynd markaðshagkerfi geti haft áhrif á kynjajafnréttisbaráttuna og gildi þess fyrir samfélagið.