Hér fara niðurstöður um hvert þeirra atriða sem borin voru saman í ritgerðinni, atvinnuhverfi kvenna, stjórnmálaþátttaka þeirra og félagslegar aðstæður barneigna. Að síðustu er að finna samantekt á efni ritgerðarinnar og hugleiðingu um hvernig halda megi áfram að skoða þetta efni í öðru samhengi.
Þótt flestar konur hafi unnið úti blekkir slík tölfræði því í rauninni var vinnumarkaðurinn kynskiptur, þar sem konur unnu við hefðbundin kvennastörf og höfðu mun lægri laun. Þær komust síður í stjórnunarstöðum þar sem karlar höfðu jafnan betri pólitísk sambönd og menntun, sem þótti við hæfi fyrir slík störf. Engin fagleg eða opinber umræða fór fram um kynjaskiptingu atvinnumarkaðarins og því viðhélst karllægt eðli hans. Við innreið markaðshyggju voru konur engu bættari og hafði fyrri staða þeirra á atvinnumarkaðnum áhrif þar á. Mikið atvinnuleysi reið yfir og hafði markaðurinn ekki undan að bæta upp fyrir töpuð störf hjá hinu opinbera. Konur voru í miklum meirihluta atvinnulausra og áttu mun erfiðara með að fá vinnu í nýja kerfinu auk þess sem áhersla á útlit og kynþokka jókst mikið og fengu konur jafnvel ekki vinnu nema þær þættu fallegar.
Hefðbundin viðhorf til kynjanna voru ráðandi og sást það á væntingum foreldra til barna sinna. Raunverulega var ekki litið svo á að starfsframi kvenna skipti mestu máli. Þær fengu mestu viðurkenninguna fyrir það að vera húsmæður og vegna þess upphófu þær einnig sjálfar húsmóðurhlutverkið. Þessi hefðbundnu viðhorf höfðu áhrif á kynjaskiptingu í vali á námi, sem leiddi til kynjaskiptingar á vinnumarkaði. Auk þess höfðu þau áhrif á framgang kvenna í starfi þar sem fyrirfram var gert ráð fyrir því að konur hefðu áhuga á barneignum en ekki starfsframa. Kynbundin verkaskipting á atvinnumarkaðnum kom aftan að konum í nýja markaðshagkerfinu og voru konur mun tregari við að tileinka sér hætti frjáls markaðar og fyrirtækjareksturs. Atvinnuumhverfi kvenna versnaði því til muna eftir fall kommúnismans. Markaðshagkerfi tryggði konum ekki vinnu og mismunaði þeim meira en áður hafði tíðkast.